Þessi grein birtist í fylgiblaði RANNÍS með
Morgunblaðinu þann 21. september 2005.

Spjall á ISIR Wiki um þessa grein

Hvað er (bílskúrs)gervigreind?

Kristinn R. Þórisson

Flestir hafa eflaust heyrt orðið "gervigreind" í fréttum eða á förnum vegi og margir þeirra spurt sig hvað gervigreind sé. Mig langar til að segja ykkur aðeins frá því hvað gervigreind er og þá sérstaklega hvað er að gerast í þeim málum fyrir ungt fólk á Íslandi um þessar mundir.

Ýmsar skilgreiningar á gervigreind hafa komið fram síðan hún komst almennilega á skrið, uppúr 1960, en þær falla flestar í einn af þremur flokkum. Einn flokkur skilgreinir gervigreind einfaldlega sem tilraun til að herma eftir einhverjum hæfileika manna eða dýra. Samkvæmt þeim er skákforrit greint — og sýnir jafnframt meiri greind eftir því sem því gengur betur að sigra. Ef við notumst við þessa skilgreiningu hafa orðið töluverðar framfarir í gervigreind, þótt flestir hafi verið of bjartsýnir í upphafi (fróðir menn spáðu t.d. því að skákforrit myndi leggja heimsmeistara að velli um 1975, en það gerðist í fyrsta sinn 1996).

Annar flokkur skilgreininga gengur út á það að gervigreind sé einfaldlega samsafn þeirra lausna sem gervigreindarfólk finnur upp. Innan vébanda gervigreindar hafa reyndar fjöldi nýrra reikniaðferða verið þróaðar og má segja að út frá þessu sjónarmiði sé gervigreindin mjög árangursrík.

Í þriðja flokknum eru skilgreiningar sem líta á greind sem eina heild. Heyrn, sjón, hreyfiskyn, tilfinningar, skilningur: Sitt í hvoru lagi eru þessi kerfi ekki greind, það er samspil þeirra sem gerir okkur (og önnur dýr) að því sem við erum. Mörgum þykir eðlilegt að nota manninn sem upphafspunkt við að líkja eftir greind í tölvum. þetta er sú skilgreining sem er líklega einna vinsælust, en samkvæmt henni eiga þó gervigreindarrannsóknir langt í land með að ná umtalsverðum árangri. Framfarir eru þó miklar — þær hafa orðið örari síðust 10 árin en allar aldirnar samanlagt þar áður — svo menn bíða spenntir eftir árangri komandi ára.

 

Við hverju er að búast?

Sameinuðuþjóðirnar hafa spáð gífurlegri aukningu á notkun róbóta á heimilum um allan heim á næstu árum. Heildarvelta af framleiðslu og sölu á vélmennum og þjörkum mun að líkindum aukast úr 1 milljarði Evra í 10 milljarði á næstu þremur árum. það er gervigreind sem knýr heila þessara véla. það er því ekki bara fræðilegur áhugi á gervigreind sem er að aukast um allan heim heldur mun einnig fjárhaslegur ávinningur aukast umtalsvert og ljóst þykir að gervigreind mun koma við sögu í hátækniþróun í síauknu mæli á næstu árum og áratugum. Gervigreindin er tækni með ótal hagnýtingarmöguleika en mun einnig verða mikilvægur hluti af afþreyingarefni framtíðarinnar, m.a. í tölvuleikjum, þar sem gervigreind gerir sýndarverur fjölbreyttari, skemmtilegri og trúverðugri.

 

Gervigreind í bílskúrnum

Hvað erum við í Gervigreindarsetri HR að gera í þessum málum? það hefur ætið verið vandamál í gervigreind hvað það er erfitt að byrja að vinna á þessu sviði. Flækjustig jafnvel hinna "einföldustu" gervigreindarkerfa hefur verið ansi hátt og erfitt að sækja á brattann. En við höfum einsett okkur að fá sem flesta til að taka þátt í þróun gervigreindar, því þekking á því sviði er lykill að nýjum möguleikum á sviði vísinda og tækni.

Frá því að Gervigreindarsetur HR var stofnað fyrr á þessu ári höfum við verið að þróa ný kerfi, ásamt leiðbeiningum, sem munu auðvelda áhugafólki um allt land að búa til gervigreind í bílskúrnum heima hjá sér. Við erum líka að safna í púkk, með aðstoð RANNÍS, ISIR (Icelandic Society for Intelligence Research) og annarra, til að hjálpa þátttakendum með ókeypis eða ódýran tölvubúnað og íhluti. Við höfum líka safnað pening fyrir pizzum, því þótt gervigreind hafi ekki átt upphaf sitt á Ítalíu þá hefur komið í ljós að slíkt fæði er afbragðs orkugjafi fyrir unga forritara. Styrktaraðilar átaksins eru m.a. Nýsköpunarsjóður námsmanna og Evrópusambandið (endanlegur listi styrktaraðila er enn í vinnslu).

það kennsluefni sem Gervigreindarsetrið hefur unnið skiptist í tvo flokka: Annars vegar vélbúnaður sem nota má sem grunn fyrir vélmenni og hinsvegar hugbúnaður til að smíða sýndarvélmenni og vitverur. Hugbúnaðurinn sem við höfum þróað auðveldar nýbyrjendum umtalsvert að leika sér með þessa hluti og jafnvel gera spennandi hluti strax. Flækjustig verkefnanna vex svo eftir því sem þátttakendur læra meira.

Markmið bílskúrsgervigreindarátaksins er sem sagt að gefa ungu áhugafólki á mennta- og háskólastigi (og eldri) um land allt tækifæri til að þróa ný gervigreindarkerfi. Við bendum áhugasömum á að öllum hugbúnaði sem við höfum þróað er hægt að hala niður af heimasíðum Gervigreindarsetursins, en þar er m.a. að finna talgreini, talgervil, sýndarheim o.fl. þar munu jafnframt verða settar upp leiðbeiningar um skráningu í október n.k.

þáttaka í bílskúsrgervigreindarátakinu er með öllu ókeypis. þáttakendur þurfa að skaffa efnið í verkefni sjálfir, en nafnið "Bílskúrsgervigreind" kemur frá því að ekki þarf endilega að kaupa tæki -- oft er hægt að finna sniðuga íhluti í bílskúrnum heima hjá sér, fá þá lánaða eða gefins. Tæknileg aðstoð verður veitt eftir bestu getu gegnum netið á spjallborðum ISIR af reyndum tæknimönnum. þá mun vonandi hugbúnaðurinn og leiðbeiningarnar sem HR skaffar nýtast vel í verkefnin. Við mælum eindregið með að fólk beisli ímyndunaraflið -- ekki láta staðlaðar hugmyndir, um hvað má og hvað má ekki, segja ykkur fyrir verkum!

Skráning vinnuhópa fer af stað á komandi vikum og munum við auglýsa eftir fólki til þáttöku, m.a. í framhaldsskólunum. Reiknum við með 1-4 manns í hverjum hóp (erfitt getur reynst að þróa gervigreind einn). Hóparnir eru þó alls ekki bundnir við framhaldsskólana -- það er öllum opið að taka þátt, ungum sem öldnum, og mælum við með blönduðum hópum. Nokkrir bílskúrsgervigreindarfundir og námskeið verða haldin á næstu mánuðum á vegum Gervigreindarsetursins og ISIR, en hóparnir koma þó til með að vinna mestan hluta af vinnunni í bílskúrnum heima hjá sér, kjöllurum eða annars staðar.

Í vor munum við svo halda stóra gervigreindaruppskeruhátíð fyrir alla hópa sem vilja sýna verkefnin sín. Vegleg verðlaun verða í boði, meðal annars fyrir fyndnustu gervigreindina, gagnlegustu gervigreindina, bestu leiðbeiningarnar og bestu nýtinguna á drasli úr bílskúrnum. þáttakendur fá þar tækifæri til að sýna hvað þeir hafa smíðað og vekja áhuga almennings á því sem þeir eru að fást við. Svo fremi sem við getum annað eftirspurn mega allir skráðir taka þátt í uppskeruhátíðinni.

Við vonum að sem flestir taki þátt í átakinu. Bílskúrsgervigreindin er ekki aðeins einstakt tækifæri til að læra um gervigreind, vélmenni og tækni heldur er fólk með þáttöku sinni að taka beinan þátt í að færa Ísland framar á þessu mikilvæga rannsóknarsviði. Svo er þetta bara svo spennandi.

 

 


 

 

 

CADIA
cadia@ru.is  |  Ofanleiti 2, IS -103 Reykjavík
Tel: +354 510 6427  |  Fax: +354 510 6201