"Stúlkur hafi ekki næga þekkingu
á námi og störfum tölvunarfræðinga
áður en þær velja sér námsbraut."

 

Spjall á ISIR Wiki um þetta málefni

"Bílskúrsgervigreindin gefur ungum konum einstakt tækifæri
til að kynna sér bæði gervigreind og tölvunarfræði
"

Er Bílskúrsgervigreind bara fyrir stráka?

 

Nei!

Margt bendir til að fleiri ungar konur myndu hafa valið sér tæknitengt nám ef þær hefðu haft haldbærari upplýsingar um hina ýmsu möguleika áður en þær völdu sér námsbraut. Í rannsókn sem gerð var við Háskólann í Reykjavík sumarið 2003 kom fram að stúlkur hafi ekki næga þekkingu á námi og störfum tölvunarfræðinga áður en þær velja sér námsbraut. Einnig kom fram að aðgengi kynjanna að tölvum er mjög mismunandi: Strákar fá aðgang að tölvum mun fyrr heima og einnig í skóla, heldur en stelpur. Þetta er mikið áhyggjuefni.

Ungt fólk þarf að kynnast sem flestum fræði- og starfsgreinum í grunn- og framhaldsskólum til að geta valið sér nám og störf við hæfi. Í skýrslu nefndar um efnahagsleg völd kvenna sem kynnt var 2004 kemur janframt fram að vinna þurfi markvisst gegn kynbundnu námsvali í skólum m.a. til að auka áhuga kvenna á tækninámi. Það virðist þannig vera nauðsynlegt að kynna tölvunarfræði sérstaklega fyrir ungum konum svo þær geti tekið ákvörðum byggða á þekkingu þegar þær ákveða hvort þær vilja starfa við þetta mjög svo fjöbreytta og mikilvæga svið.

Skortur á vel menntuðu fólki

Evrópusambandið hefur nýlega gefið frá sér skýrslu um að 700.000 ný störf í tækni- og verkfræði vantar í Evrópu á næstu árum til að við getum keppt við Bandaríkin, Japan og önnur ríki í hátækniþróun.

 

 

Tölvukunnátta er grundvöllur upplýsingaþjóðfélagsins — þörf á fólki menntuðu á þessu sviði fer vaxandi um heim allan og búast má við áframhaldandi breytingum í þá átt þar sem tölvutækni skiptir æ meira máli í framleiðslu, þjónustu og meðhöndlun vöru og upplýsinga í þjóðfélaginu.

Þrátt fyrir að konur séu rúm 60% nemenda í háskólum og sérskólum þá hefur þeim fækkað umtalsvert undanfarin ár í tölvunarfræði. Sem dæmi má taka var hlutfall kvenna í umsóknum um nám í tölvunarfræði við HR 31% árið 2000 en var vorið 2003 komið niður í 12%. Þessi þróun er áhyggjuefni fyrir uppbyggingu upplýsingatækninnar í landinu því æskilegt er að bæði kynin komi að þróun og eflingu greinarinnar.

Bílskúrsgervigreindin gefur ungum konum einstakt tækifæri til að kynna sér bæði gervigreind og tölvunarfræði og taka þátt í að jafna þann óeðlilega (og óskiljanlega!) kynjamun sem ríkir á þessu sviði.

 

Með kveðju,

Ásrún Matthíasdóttir, lektor
verkefnastjóri fjarnáms og háskólanáms með vinnu

Dr. Kristinn R. Þórisson, dósent
stjórnandi Gervigreindarseturs HR

 


 

 

 

CADIA
cadia@ru.is  |  Ofanleiti 2, IS -103 Reykjavík
Tel: +354 510 6427  |  Fax: +354 510 6201