Hrafn var sigurvegari í keppninni Ungir Vísindamenn á Íslandi 2004
og fór til Írlands til að keppa fyrir okkar hönd
við 40 önnur lönd í Evrópu. Hann skrifaði þessa grein
fyrir Vírus, blað tölvunarfræðinema við
Háskólann í Reykjavík, fyrr á árinu.

 

Spjall á ISIR Wiki um þessa grein

 

Afkomendur mannkyns

Hrafn Þorri Þórisson

Með hjálp véla og fjöldaframleiðslu hefur mannkyninu tekist að stíga upp úr moldarkofum og inn í upplýsingaöldina. Fjöldaframleiðsla og tækni hefur gert það að verkum að við stöndum framar í lífsbaráttunni en nokkru sinni. En með allan okkar aragrúa af stórum og smáum vörum fjöldaframleiðslunnar – þá er þó til ein vara sem úrelda mundi allar aðrar vörur yrði hún fjöldaframleidd.

Hugsum okkur vel um: hvað er það mikilvægasta fyrir framfarir vestrænna iðnríkja – eru það bílar, föt, símar, tölvur? Mörgum finnst kannski bílar vera eitt af aðalatriðum iðnvæðingar og þar af leiðandi framförum heimsins. Aðrir myndu segja tölvur. En ekkert af þessum hlutum kemst hins vegar í hálfkvistinn við vöruna sem ég myndi helst vilja geta fjöldaframleitt. Mér væri sama um alla fyrrnefnda hluti ef við aðeins hefðum hana. En þetta eru ekki aðeins draumórar, ég tel að fjöldaframleiðsla þessarar vöru verði brátt að raunveruleika og hún muni orsaka nýja iðnbyltingu sem leiðir til róttækra breytinga á lifnaðarháttum mannkynsins.

Framleiðsluferlið

Mannleg greind og hugsun er uppspretta allra okkar gerða og það augljósasta sem greinir okkur frá öðrum dýrum. Hún er uppspretta nútíma þjóðfélags eins og við þekkjum það og móðir allra fræðigreina: verkfræði, eðlisfræði, stærðfræði, heimspeki og augljóslega sálfræði. Greind er ástæða þess að við vitum og gerum eitthvað yfirleitt. Hún er allt sem við erum, sama hvort þú aðhyllist „að hugsa, og þessvegna vera" eða öfugt, því án „hugsunar" þá er ekkert sem heitir að vera.

En eins og hún er framleidd í mestu mæli í dag, þá er greind ekki eins og okkar dæmigerða framleiðsluvara. Hún er ekki raunveruleg hárkolla né virkar jafn vel og nýr Porsche. Undir venjulegum kringumstæðum er hún hvorki í fallegum pakkningum né nothæf þegar hún kemur úr verksmiðjunni á fæðingadeildum víðsvegar um heiminn. Af þessum sökum leggur mannkynið heilmikið í að viðhalda framleiðsluferlinu með ítarlegri „greindarverksmiðju" sem við köllum skóla. Í því samfélagi sem við höfum þróað, þurfum við sérfræðinga á ýmsum sviðum og eina leiðin til að framleiða sérfæðinga hingað til hefur verið svefnherbergi, fæðingardeild og skólakerfi. En eins og fyrr var sagt, þá stöndum við frammi fyrir mikilvægum tímamótum og breytingum í þeim málum.

Margir eru ef til vill farnir að spyrja sig hvert ég er að leiða þessa umræðu, því augljóslega ætlum við ekki að fara að framleiða fólk (þó einræktun sé vissulega efni í aðra grein). Greind kemur í fleiri gerðum af pakkningum en þeim sem fyrirfinnast á fæðingardeildum og í skólum. Pakkningin sem um er að ræða eru tölvur, og greindin hefur hlotið nafnið gervigreind (hér eftir g-greind). Greind er varan sem mun gjörbylta lifnaðarháttum mannkynsins enn á ný.

Vélar sem slíkar eru augljóslega fjölfaldanlegar og þar af leiðandi gera greindar vélar okkur kleift að fjöldaframleiða greind.

Greindur hugbúnaður hefur marga kosti framyfir þá annmarka sem mannlegur heili hefur að geyma. þegar um er að ræða vél- og hugbúnað erum við t.d. ekki háð siðferði við tilraunir. Hægt er að skera hugbúnaðarheila hægri vinstri án þess að það fari fyrir brjóstið á neinum. Einnig býður g-greind upp á það að sífellt er hægt að bæta og breyta kerfinu, og síðast en ekki síst þá er hún óháð líkamlegum eiginleikum. Með öðrum orðum, þá er greindin aðeins háð hraða tölvunnar sem hún keyrir á og eðli forritsins sjálfs – en það eru báðir hlutir sem auðvelt er að breyta.

Almennt eru flestir sammála því, að ef við fjarlægjum heilann úr manneskju þá sitjum við eftir með tóma skel. Líkaminn okkar hefur verið rómaður sem farartæki sálarinnar, eða hylki hins andlega – með öðrum orðum að líkaminn sé vél sem hugurinn notar til að ferðast í.

Hinsvegar er það sem flestir fræðimenn eru sammála um, en flestir aðrir ósammála, er að hugurinn sjálfur sé líka vél. Réttara sagt, að heilinn sé vélin, og hugurinn sé það sem heilinn gerir [1]. Með þeirri fullyrðingu göngum við útfrá því að í byrjuninni hafi verið efni. Sumt af þessu efni tolldi ekki saman, annað gerði það. Efnið sem tolldi saman köllum við lífverur í dag, fjórum milljörðum árum seinna.

Sem afsprengi þróunar hefur maðurinn smám saman mótast eins og deig í hrærivél þessarar plánetu sem við köllum Jörð. Hann hefur aðlagast öllum þeim flækjum og dyntum sem hún hefur upp á að bjóða. Sem betur fer er þessi Jörð flókið fyrirbæri, því án flækjunnar væri ólíklegt að við hefðum náð því greindarstigi sem við höfum nú í dag [2] og er Jörðin því stærsta greindarverksmiðja sem fyrirfinnst. þó nákvæmir eiginleikar hugans séu enn óþekktir, fræðingum til mikillar skemmtunar, þá benda flestar rannsóknir til þess að hann sé það sem svo margir hræðast ... vél.

Endurvarpshrifin

Í iðnbyltingunni á 19. öldinni ruddu sjálfvirkar vélar sér veg inn í samfélag Vesturlanda og, eins og við vitum, höfðu í för með sér ódýrari vörur, fjölbreyttara úrval og betri lífskjör [3]. þetta hafði einnig í för með sér keðjuverkun sem enn sér ekki fyrir endann á: þegar vélarnar fóru að auðvelda fólki lífið og margfalda þau afköst sem verkamenn höfðu áður skilað, þá fengum við meiri tíma til að smíða betri og nákvæmari vélar. Segja má að þetta hafi verið fyrsta skrefið í átt að g-greind. þessi þróun hrinti á stað keðjuverkun sem leiddi til sífellt nákvæmari véla og sífellt betri framleiðsluvara. En hvað gerist þegar framleiðsluvaran er greind? Búast má við að virknin hafi endurvarpshrif (e. feedback) og við það myndist enn hraðari stighækkun heldur en í fyrra skiptið. þetta má tákna á eftirfarandi hátt:

 

Gs = Gm ^ Gg

þar sem Gs er samtals greind dagsins í dag, Gm mannleg greind og Gg er gervigreind. Mg er í veldi g-greindar þar sem gáfur mannsins margfaldast með aðstoð hraðvirks vélbúnaðar og klárari hugbúnaðar

Hér sést að g-greind og mannleg greind mynda endurvarpshrif; mannleg greind eykur g-greind og g-greindin eykur visku mannsins í kjölfarið. þessi aukning fer augljóslega á einhverjum tímapunkti fram úr öllu valdi og það hafa fræðimenn nefnt Sérstæðuna (e. Singularity). þegar talað er um sérstæðu varðandi greind, þá er átt við að þegar greind fer framúr þeirri sem til er í dag, þá verða allir spádómar okkar um framtíðina gagnslausir og framtíðin alls óviss. Einfaldasta leiðin sem ég kann til að útskýra þetta ferli er að þegar veldis-vöxtur nálgast lóðrétta ásinn (y-ás) og tíminn nálgast núll í færslu (x-ás), þá er ekki hægt að segja til um á hvaða tíma eitthvað gerist – og því ekki hægt að spá – allt gæti gerst á hvaða tíma sem er.

Hugsanlega er tvennt sem getur leitt til sérstæðunnar, annars vegar að vélarnar verði öflugri en mannleg greind og hinsvegar að g-greindin verði svo gott stuðningskerfi fyrir mennina að hún færi getu okkar á nýtt stig. Líklegt er að bæði gerist; fyrst verði hún gott stuðningskerfi sem leiðir af sér betri getu til að skapa greindari vélar, ekki ósvipað því sem gerðist í iðnbyltingu 19. aldarinnar.

Framtíðin

í dag erum við nær vélum með mannlega greind heldur en nokkurn tíma í sögu mannsins. Byggingarvélar, þvottavélar, heimilisvélmenni og tölvuleikir – smám saman eru að spretta upp sífellt greindari kerfi. Helstu not g-greindar í dag flokkast líklega undir gagnaúrvinnslu og upplýsingameðhöndlun (sbr. internetið og leitarvélar). þó eru margir sem telja að þesskonar kerfi séu ekki greind heldur aðeins sjálfvirk og því sé fásinna að hugsa að við séum nokkuð nær vélum með mannlega greind.

Sannleikurinn er sá að í dag eru fjölmargar vélar til staðar sem fyrir 20 árum hefðu verið taldar hafa mannlega eiginleika greindar, en eru í dag séðar sem hver önnur vél sem vefur teppi – sjálfvirkar. Sífellt eru nýjar greindar vélar að ryðja sér veg inn á markaðinn og sinna æ mannlegri störfum en falla því miður jafn óðum í „sjálfvirka flokkinn”. Ástæðuna hafa rannsakendur gervigreindar kallað „G-greindar hrifin" (e. A.I. Effect). James Hogan fjallar um þessi hrif Í bók sinni „Mind Matters", þar sem hann lýsir því á þann hátt að þegar fólk skilur þá tækni sem liggur að baki g-greindum vélum þá telji það vélina einfaldlega samansafn af tölvukóða og algrímum, en ekki raunverulega greinda. Að mati höfundar er talað um einn og sama hlutinn á mismunandi flækjustigum. Í dag er enn umdeilanlegt hvort mannsgreind sé í raun sjálfvirk [4]. En sama hvort við lítum á þessar g-greindu vélar sem sjálfvirkar eða ekki þá er það augljóst að þær verða sífellt færari um að sjá um sig sjálfar, rétt eins og við mannfólkið.

Miðað við notkun g-greindar í dag, þá er ljóst að notkun hennar mun stöðugt færast í aukana og hugbúnaður verða gáfaðri í kjölfarið. Samkvæmt Bandaríkjaskrifstofu Iðnaðar- og Öryggismála velti gervigreindariðnaðurinn árið 1994 um $900 millljónum bandaríkjadollara á heimsvísu[5]. Samkvæmt Business Communications Company inc., sem stundað hefur iðnaðarrannsóknir síðan 1971, þá velti g-greindar iðnaðurinn um 11.9 milljörðum árið 2002. Samkvæmt viðamikilli rannsókn frá sömu samtökum mun g-greindar iðnaðurinn vaxa með 12.2% árlegri aukningu og árið 2007 vera kominn upp svimandi $21.2 milljarði bandaríkjadollara [5]. þessar spár endurspeglast í nýlegum spám Sameinuðu þjóðanna um að fjöldi heimilisvélmenna muni sjöfaldast fyrir árið 2007, eða að það verði um 4.1 milljón vélmenna að sinna heimilisstörfum um allan heim.

Í viðbót við fyrrnefnda notkun gervigreindar má einnig nefna g-greind í flugvélum (farþegaflugvélar geta yfirleitt lent sjálfar), leikjum og véldýrum (SONY Aibo) en einnig eru g-greind mikilvæg fyrir öryggiskerfi, eins og t.d. Poseidon sundlaugakerfið sem fylgist með og lætur vita ef einhver virðist eiga í erfiðleikum í lauginni. þess má geta að Poseidon kerfið varð nýlega til þess að ungur drengur bjargaðist frá drukknun í París [7].

Sundlaugar eru þó langt frá því að vera eini staðurinn sem g-greind getur bjargað mannslífum. Augljóslega er mannleg greind öflugt verkfæri, en við höfum ekki og munum ekki koma til með að hafa náttúrulegan mannafla til að leysa öll þau vandamál sem framtíðin ber í skauti sér. þegar við „fjöldaframleiðum" fólk til að nýta greind, þá fylgir því alltaf ný vandamál eins og að fólk þarf mat, orlof, fríðindi, tannréttingar o.s.frv. En þegar við fjöldaframleiðum g-greind þá er um annað að ræða: vélar þurfa ekki mat, laun, svefn eða fæðingarorlof – þær vinna dag og nótt við að leysa vandamál eða koma í veg fyrir að þau gerist. G-greind er því ekki aðeins mikilvæg tækni heldur nauðsynleg.

Með tilkomu mannlegrar eða ofurmannlegrar g-greindar mætti ímynda sér að enginn skortur yrði á mannafla, enginn skortur á fólki til að hjálpa heimilislausum og námskrár yrðu sniðnar eftir þörfum hvers og eins. Skrifræði vesturveldanna væri e.t.v. fullkomið kerfi ef ekki væri fyrir upplýsingaflöskuhálsinn – þegar upplýsingaflæðið verður svo mikið að kerfið hefur ekki undan – með hjálp g-greindar þyrfti hvergi að vera köld súpa af óflokkuðum upplýsingum. þessir vélrænu afkomendur okkar væru alltaf reiðubúnir til hjálpar. þúsundir „vélhuga” gætu unnið dag og nótt við að bæta tækniþekkingu, stytta okkur leiðir og minnka þar með útgjöld og eyðslu. það eru engin takmörk fyrir notagildi gervigreindar. Mikilvægi hennar og áhrif jafngilda því þegar greind gerði okkur kleift að nota verkfæri, sem leiddi til iðnvæðingar og allra okkar afreka. G-greind og fjöldaframleiðsla hennar er bókstaflega endurfæðing mannkynsins.

 


HEIMILDIR

[1] Minsky, Marvin. 1986. The Society of Mind. New York: Simon and Schuster,.

[2] Thórisson, Hrafn. 2004. A Framework for Exploring the Evolutionary Roots of Creativity, Proceedings of the European Conference on Case-Based Reasoning 2004 (ECCBR 2004) Workshops, síður 179-190. Madrid: Complutense University of Madrid.

[3] Gunnar þór Bjarnason & Margrét Gunnarsdóttir. 2003. Íslands og Mannkynssaga NB II, síður 57-58. Reykjavík: Nýja Bókafélagið ehf.

[4] Minsky, Marvin. 1986. The Society of Mind. New York: Simon and Schuster.

[5] Business Communications Company Inc. 2003. Netið sem heimild. Yfirlit á rannsókn RG-275. http://www.bccresearch.com/editors/RG-275.html (Sótt 5.03.2005)

[6] U.S. Bureau of Industry and Security. 1994. Netið sem heimild. http://www.bxa.doc.gov/DefenseIndustrialBasePrograms/OSIES/DefMarketResearchRpts/ArtificialIntell1994.html (Sótt 5.03.2005)

[7] Fréttir á Poseidon-Tech vefsíðu. 2005. http://www.poseidon-tech.com/ (Sótt 5.03.2005)

 

 

CADIA
cadia@ru.is  |  Ofanleiti 2, IS -103 Reykjavík
Tel: +354 510 6427  |  Fax: +354 510 6201