"Við óskum eftir fólki sem getur hjálpað nemendum til að taka þátt í þessu frábæra verkefni."

 

  "Samkvæmt nýrri spá Sameinuðuþjóðanna mun heimilisvélmennum fjölga sjöfalt
næstu 3 árin"

BÍLSKÚRSGERVIGREINDARÁTAKIÐ

Kæru kennarar, skólameistarar og samstarfsfólk:

Í þessum pósti er að finna lýsingu á hugmynd sem ætlað er að auka áhuga nemenda á vísindum og tækni og færa Ísland nær nágrannaþjóðum okkar hvað varðar skemmtileg viðfangsefni fyrir nemendur utan skóla. Ég vona að vel verði tekið undir þessa hugmynd.

Hugmyndin kallast „Bílskúrsgervigreind“. Við óskum hér með eftir fólki sem getur hjálpað nemendum til að taka þátt í þessu frábæra verkefni. Megin hlutverk skólanna er að vera tengiliður milli nemenda og okkar í Gervigreindarsetri HR.

Bílskúrsgervigreindarátakinu er ætlað að gera öllum nýbyrjendum, og kunna eitthvað fyrir sér í forritun, kleift að hanna gervigreind ­ í bílskúrnum heima hjá sér, kjallaranum eða skólanum.

Hugmyndin er einföld. Við höfum safnað saman dæmum, hugbúnaði og leiðbeiningum á einn stað þar sem allir geta nálgast efnið. Staðurinn er á netinu: http://ailab.ru.is/projects/bilskursgervigreind Leiðbeiningarnar miða að því að nota gamalt drasl og tölvur, sem oftar en ekki eru í fínu lagi, til að halda kostnaði í lágmarki.

Við erum búin að afla styrkja til að hjálpa þátttakendum á ýmsan hátt, meðal annars bjóðumst við til að endurgreiða matarkostnað (allt að kr. 4.000 per fund, tvisvar í mánuði) fyrir hópa sem hittast reglulega og vinna saman. Við getum líklega útvegað tölvur fyrir þá sem þurfa á því að halda.

 

 

 

Það kemur líklega flestum á óvart að samkvæmt nýrri spá Sameinuðuþjóðanna mun notkun heimilisvélmenna aukast sjöfalt á næstu 3 árum. Bílskúrsgervigreindarátakið hefur það hlutverk að ýta undir áhuga á tækni og vísindum, vera stoðkerfi fyrir vísindalega tilraunastarfsemi og jafnframt að búa yngri kynslóðir undir gervigreindarbyltinguna.

Við vonum að fjöldi nemenda smíði skemmtileg verkefni og veki áhuga annarra nemenda á þessu sviði. Í vor verður svo haldin gervigreindaruppskeruhátíð þar sem vegleg verðlaun verða í boði og verkefnin kynnt fjölmiðlum.

Við óskum hér með eftir samstarfsaðilum, einstaklingum, stofnunum, með opinn hug fyrir tækni framtíðarinnar og vilja til þess að gefa nemendum tækifæri til þess að nýta sköpunargáfu sína. Við leitum jafnframt að tengiliðum sem geta hjálpað nemendum við að koma sér upp aðstöðu og vera milliliðir við okkur í Gervigreindarsetrinu. Áhugasamir eru beðnir um að hafa samband við mig, Kristinn R. Þórisson (thorisson@ru.is eða s. 898 0398).

Nánari upplýsingar er að finna hér: http://ailab.ru.is/projects/bilskursgervigreind

Með von um góðar undirtektir,


Dr. Kristinn R. Þórisson

Dósent, Háskólanum í Reykjavík

 


 

 

 

CADIA
cadia@ru.is  |  Ofanleiti 2, IS -103 Reykjavík
Tel: +354 510 6427  |  Fax: +354 510 6201